Pétur Pétursson fimmtudagurinn 28. júlí 2016

Bálkestir og brennur

Nú líður að verslunarmannahelginni og huga margir á skemmtilegar samverustundir með sínum nánustu í nátúrunni á þessum tíma. Tekið er að rökkva á kvöldin og er því eðlilegt að álykta sem svo að varðeldagenið í íslendingnum geri vart við sig. Þá er mikilvægt að fara að öllu með gát.

Árið 2015 komu út ný lög nr. 40 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum og í kjölfarið var gefin út reglugerð árið 2016 nr. 325 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.

Ekki þarf lengur sérstakt leyfi sýslumanns til þess að brenna bálköst sem er undir einum rúmmetra að stærð og logar ekki lengur en eina klukkustund samkvæmt 18.gr reglugerðarinnar. Slíkur bálköstur flokkast sem lítil brenna og er fjallað um hann í 19 grein reglugerðarinnar.

Gæta þarf þess að litlar brennur séu ekki nær íbúabyggð en 100 metra og hún skal þannig staðsett að ekki sé hætta á að eldur geti breiðst út. Bálköstinn skal staðsetja þannig að aðgangur sé að nægu slökkvivatni komi upp þær aðstæður til þess að grípa þurfi til þess.

Nokkrir punktar:
• Sá sem ber ábyrgð á bálkestinum þarf að vera á staðnum allan tímann meðan bálkösturinn brennur (23.gr reglugerðar).
• Gæta skal ítrustu varkárni við alla meðferð opins elds og ekki skilja við hann óvaktaðan (3.gr reglugerðar).
• Óheimilt er að senda á loft logandi kertaluktir (5.gr reglugerðar).
• Óheimilt er að kveikja eld í bálkesti að nóttu til frá klukkan 23:00 til 06:00 (19.gr reglugerðar).
• Ekki skal kveikja í bálkesti ef meðalvindur er meiri en 10 metrar á sekúndu eða ef vindátt er óhagstæð á brennustað (8.gr reglugerðar).
• Opin brennsla úrgangs er óheimil, sbr. ákvæði laga um meðhöndlun úrgangs (4.gr reglugerðar).
• Samkvæmt 9. grein laga nr.40 2015 um bótaábyrgð, mun sá sem veldur tjóni með sinubrennu eða meðferð elds á víðavangi þannig að saknæmt sé, bera fébótaábyrgð á því tjóni sem af hlýst og er jafnframt heimilt að innheimta kostnað við útkall slökkviliðs hjá þeim sem tjóninu veldur með saknæmum hætti.

Samkvæmt 18. grein reglugerðarinnar er óheimilt að brenna bálköst nema samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns. Ekki þarf þó leyfi sýslumanns til að brenna bálköst þar sem brennt er minna en einn rúmmetra af efni.

Með von um farsæla verslunarmannahelgi :)

Slóðir á lögin og reglugerðina:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/2015040.html
http://www.reglugerd.is/…/umhverfis--og-audlin…/nr/0325-2016

1 af 2

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Reykholti voru kallaðir út vegna glussaleka á veginum milli Geysis og Gullfoss fimmtudaginn 16 júní síðastliðinn. Þarna hafði glussaslanga gefið sig á bíl er notaður var við vegmerkingar með þeim afleiðingum að glussi fór á veginn á um eins kílómeters kafla. Mat slökkviliðsmanna á vettvangi var að umfang mengunarinnar væri of mikið miðað við þann búnað sem slökkviliðið ræður yfir og var því sértæk hreinsibifreið fengin í verkið.

Mikilvægt er að hreinsa upp olíumengun sem þessa af vegum vegna umhverfissjónarmiða og vegna slysahættu þar sem vegir verða afar hálir við þessar aðstæður.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu þurftu að beita klippum síðla dags í gær til þess að losa flutningabíl sem ekið hafði verið undir Ölfusárbrú með þeim afleiðingum að hann sat þar fastur.

Áður en tekið var til þess ráðs að klippa flutningskassa bifreiðarinnar var búið að reyna ýmsar hefðbundnari leiðir til losunnar en allt kom fyrir ekki.

Um klukkustund tók að losa bifreiðina sem er stórskemmd en engar skemmdir var að sjá á brúarmannvirkinu við fyrstu skoðun utan þess að málning skrapaðist af stálbitum brúarinnar þar sem bíll og brú mættust.

Pétur Pétursson þriðjudagurinn 21. júní 2016

Banaslys á Suðurlandsvegi

Banaslys varð á Suðurlandsvegi þegar vörubifreið valt út af veginum vestan við Vík í Mýrdal um hádegisbil í gær.

Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu fóru á vettvang með búnað til aðstoðar við slökkviliðið í Vík en mikið og gott samstarf er milli þessara tveggja slökkviliða.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

Pétur Pétursson miðvikudagurinn 8. júní 2016

Gróðureldur á Þingvöllum 7.6.2016

1 af 3

Tilkynnt var um gróðureld á þremur stöðum á Þingvöllum klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi. Eldarnir loguðu í sinu í og við Almannagjá. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni fóru á vettvang og slökktu eldana með góðri aðstoð nokkurra vegfarenda og landvarða. Að sögn Bjarna Daníelssonar, varðstjóra BÁ sem stýrði aðgerðum á vettvangi var sú aðstoð ómetanleg og virkilega vel þeginn.

Áður en slökkviliðsmenn mættu á svæðið voru fjórir landverðir þjóðgarðarins með vasklegri framgöngu búnir að vinna á eldinum að miklu leiti með öllum tiltækum áhöldum sem þeir náðu til.

Það vildi svo til að eldurinn logaði í graslendi þar sem ekki var trjágróður og því varð ekki stórkostlegt tjón af eldinum. Erfitt var þó að athafna sig við slökkvistörfin þar sem klöngrast þurfti upp brekkur og kletta til þess að komast að eldinum.

Afar þurrt er um þessar mundir á Þingvöllum og íkveikihætta því mikil. Rétt er því að brýna það fyrir fólki sérstaklega að fara varlega með eld og fylgjast með náunga sínum í meðförum á eldi en talið er að þarna hafi verið um íkveikju að ræða. Þingvellir eru ein af helstu náttúruperlum okkar Íslendinga og því afar mikilvægt landsmenn hjálpist að við að tryggja öryggi hennar.

 

Á einni af meðfylgjandi myndum má sjá þrjár af hjálparhellum slökkviliðsmannanna en þau heita Berglind Eva Eiríksdóttir, Helaga Valtýsdóttir og Herluf Ingvar Clausen. Gunnar Rafnsson beitti sér einnig af hörku við slökkvistörfin en því miður er ekki til mynd af honum.

Brunavarnir Árnessýslu færa ykkur sínar bestu þakkir góða fólk!

Vefumsjón