Landsvirkjun (LV) hefur gert samstarfssamning við Brunavarnir Árnessýslu (BÁ) um auknar brunavarnir á rekstrarsvæði fyrirtækisins á Þjórsár- og Tungnaársvæði, vegna framkvæmda við stækkun Búrfellsvirkjunar sem eru að hefjast um þessar mundir.

Samkvæmt samningnum greiðir LV BÁ samtals 44 milljónir króna á sex ára tímabili, en BÁ mun auka við aðstöðu sína í Árnesi og bæta við búnað. Þá mun BÁ sjá alfarið um brunavarnir á virkjunarsvæðinu vegna framkvæmdanna, halda brunaæfingar tvisvar á ári og þjálfa starfsfólk Landsvirkjunar og verktaka sem vinna við stækkunina.

Þjórsár- og Tungnaársvæði eru stærsta rekstrarsvæði LV og fyrir er í gildi samningur milli BÁ annars vegar og LV og Landsnets hins vegar um brunavarnir þar og á Sogssvæði.

BÁ mun samkvæmt samningnum auka við aðstöðu sína í Árnesi, svo þar sé til staðar dælubíll, mannskapsbíll og búnaðarkerra með góðu aðgengi. Jafnframt mun aðstaða fyrir starfsmenn og búnað þeirra verða aukin til samræmis við þarfir. Með þessari bættu aðstöðu munu útkallsmöguleikar batna vegna atvika í stöðvum og á framkvæmdasvæðum LV  á Þjórsár- og Tungnaársvæði.

Þá mun BÁ auka við búnað sinn í Árnesi, auk þess að staðsetja á framkvæmdasvæðinu við Búrfell lausa dælu, öndunarvarnir og annan búnað vegna fyrstu viðbragða á framkvæmdatíma, sem er áætlaður til september 2018.

BÁ mun sjá alfarið um brunavarnir á virkjunarsvæðinu vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar og mun halda brunaæfingar tvisvar á ári.

Framlag LV samkvæmt samningnum, alls 44 milljónir króna, skiptist þannig að árið 2016 greiðir fyrirtækið tólf milljónir króna, árið 2017 átta milljónir og svo sex milljónir á ári til ársins 2021.

Um Þjórsár- og Tungnaársvæðið

Á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu eru Vatnsfellsstöð, Sigöldustöð, Hrauneyjafossstöð, Búðarhálsstöð, Sultartangastöð og Búrfellsstöð. Þá eru nú að hefjast framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar sem lesa má nánar um hér.

Öryggisstefna Landsvirkjunar

Samkvæmt öryggis-, heilsu- og vinnuverndarstefnu Landsvirkjunar stefnir fyrirtækið að því að vera í fararbroddi á sviði öryggis-, heilsu- og vinnuverndarmála. Stefna Landsvirkjunar í málaflokknum er slysalaus starfsemi og vellíðan á vinnustað.

Stefnumið:

  • Slysalaus starfsemi.
  • Aðbúnaður á vinnustað miðar að því að viðhalda góðri heilsu og vellíðan starfsmanna.
  • Starfsmönnum er tryggð nauðsynleg þjálfun í öryggismálum og vinnuvernd.
  • Áhætta er metin í allri starfseminni.
  • Ábyrgð stjórnenda er skýr og starfsmenn vita að öryggi þeirra hefur ávallt forgang.
  • Unnið er að stöðugum umbótum í öryggis-, heilsu- og vinnuverndarmálum.

 

Á meðfylgjandi mynd eru: 

Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, Ari Björn Thorarensen, formaður Héraðsnefndar Árnesinga, Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri orkusviðs hjá Landsvirkjun og Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs hjá Landsvirkjun.

Pétur Pétursson laugardagurinn 28. maí 2016

Harður árekstur við Hveragerði 28.5.2016

Harður árekstur varð á þjóðvegi 1 við Hveragerði rétt fyrir klukkan sex í dag. Bílar úr gangstæðum áttum skullu saman, hvor framan á öðrum. Talsverður viðbúnaður var hjá slökkviliði, lögreglu og sjúkraflutningum í Árnessýslu vegna þessa, þar sem um háorku slys var að ræða. Fimm manns voru í bílunum, fjórir fullorðnir og eitt ungabarn og voru þau öll flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til frekari skoðunar.

Mikil umferð var er slysið varð og urðu nokkrar tafir vegna þessa. Veginum var þó ekki lokað og sáu slökkviliðsmenn um umferðastjórnun meðan vettvangurinn var unnin upp til þess að greiða fyrir umferð.

Pétur Pétursson þriðjudagurinn 24. maí 2016

Bílvelta á Villingaholtsvegi 24.5.2016

Slökkviliðseining Brunavarna Árnessýslu á Selfossi, Lögregla og sjúkraflutningar voru kölluð til rétt fyrir klukkan þrjú í dag vegna bílveltu á Villingaholtsvegi. Ökumaður hafði misst stjórn á bifreiðinni með þeim afleiðingum að bifreiðin fór eina veltu og endaði á hjólunum utanvegar. Ekki þurfti að beita klippum við að ná ökumanni og farþega út en fjarlægja þurfti girðingu sem bifreiðin lá þétt upp við til þess að aðstoða ökumann bifreiðarinnar út.

Ökumaður og farþegi voru flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til skoðunar.

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi æfðu björgun manna úr eitruðum lofttegundum auk annarra aðstæðna laugardaginn 9.maí síðastliðinn í Nesjavallavirkjun. Æfingin er liður í endurmenntunar og símenntunar skipulagi BÁ til þess að viðhalda og bæta við þekkingu slökkviliðsmanna. Eins og með aðra menntun og æfingar á þessu sviði eykur þetta til muna öryggi björgunaraðila og borgara auk þess sem vinnubrögð verða faglegri og virkari.

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Selfossi og Hveragerði komu saman til æfinga í Hellisheiðarvirkjun síðastliðin Laugardag. Að mörgu er að hyggja í raforkuverum sem þessu og því afar mikilvægt að björgunaraðilar séu vel að sér hvað varðar hættur og aðstæður í raforkuverum. Þessi æfing er ein af mörgum æfingum BÁ í raforkumannvirkjum Árnessýslu sem haldnar eru á árinu 2016.

Vefumsjón