Pétur Pétursson föstudagurinn 23. september 2016

Vatnsöflunar og dæluæfing á Laugarvatni 21.9.2016

1 af 3

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu á Laugarvatni hittust til þess að skerpa á fræðunum síðastliðið miðvikudagskvöld. Æfingarþema BÁ þennan mánuðinn er vatnsöflun úr grunnum vatnslindum með flotdælu og flotsigti á lausar dælur. 

Um árabil hafa slökkviliðsmenn notað Laugarvatn til vatnsöflunar með ágætis árangri en í þetta sinn hafði verið mikill blástur og var vatnið því mettað af fínu leirkenndu efni. Þetta fór ekkert sérstaklega vel í dælubúnaðinn og endaði með því að tvær þeirra hættu að dæla. Auðvelt var að laga þær eftir herlegheitin en þó þurfti að opna þær og skola burtu óhreinindunum. 

Alltaf betra þegar svona hlutir gerast á æfingum heldur en í útköllum. Mönnum gefst þá færi á að endurskoða vinnureglur og aðlaga þær að aðstæðum.

Boð bárust til Neyðarlínu um að reyk legði frá húseigninni við Austurveg 21 á Selfossi, um hálf ellefu í gærkvöldi. Boðin bárust frá vegfaranda er átti þarna leið um. Við nánari skoðun Slökkviliðsmanna Brunavarna Árnessýslu kom í ljós að þarna höfðu erlendir ferðamenn lagt gistibifreið sinni og voru að gera sig líklega til eldamennsku. Verið var að kveikja upp í kolagrilli en eitthvað gekk það illa og lagði mikinn reyk frá grillinu. 

Málið var því leyst á staðnum án inngripa slökkviliðs.

Pétur Pétursson miðvikudagurinn 21. september 2016

Vatnsöflunar og dæluæfing í Ölfusi þann 17.9.2016

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn hittust síðastliðin laugardag til þess að æfa sig í vatnsöflun og notkun lausra dæla. Aðal áhersla æfingarinnar var að þessu sinni vatnsöflun frá grunnum vatnslindum þar sem erfitt er að nota hefðbundin búnað. Flotdæla og flotsigti voru því megin þema æfingarinnar auk þess sem annar búnaður var að sjálfsögðu notaður. 

1 af 3

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði voru kallaðir út á tíunda tímanum í gærkvöldi vegna elds í bifreið. 

Um var að ræða númerslausa bifreið sem ungir ökumenn voru að aka í gryfjunum þegar að eldurinn kom upp. Ekki urðu slys á fólki við atvikið. 

Slökkviliðsmenn slökktu eldinn hratt og örugglega eftir að þeir komu á vettvang en bifreiðin er gjör ónýt.

Fyrsta skóflustunga nýrrar slökkvistöðvar Brunavarna Árnessýslu í Árnesi var tekin síðdegis í dag þegar Arnór Hans Þrándarson, formaður Búnaðarfélags Gnúpverja og slökkviliðsmaður vippaði sér upp í gröfu af stærri gerðinni og ýtti þar með verkefninu formlega úr vör við fögnuð viðstaddra. 

Einungis hluti Hússins mun hýsa slökkviliðsstöð en auk BÁ verður í húsinu ýmis önnur starfsemi. Húsið verður 500 fermetrar að flatarmáli en Brunavarnir Árnessýslu munu þar af hafa 123 gólffermetra auk 48 fermetra millilofts. 

Búnaðarfélagið stendur að byggingu hússins en það verður Stálgrindarhús á steyptum sökklum, klætt með samlokueiningum. Fyrirtækið Landstólpi mun steypa sökklana og reisa húsið en Búnaðarfélagið mun sjá um að fullklára húsið til afhendingar. Gert er ráð fyrir að húsið verði afhent fullbúið til Slökkviliðsin þann 15.maí 2017.

Vefumsjón