1 af 2

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Reykholti voru kallaðir út vegna glussaleka á veginum milli Geysis og Gullfoss fimmtudaginn 16 júní síðastliðinn. Þarna hafði glussaslanga gefið sig á bíl er notaður var við vegmerkingar með þeim afleiðingum að glussi fór á veginn á um eins kílómeters kafla. Mat slökkviliðsmanna á vettvangi var að umfang mengunarinnar væri of mikið miðað við þann búnað sem slökkviliðið ræður yfir og var því sértæk hreinsibifreið fengin í verkið.

Mikilvægt er að hreinsa upp olíumengun sem þessa af vegum vegna umhverfissjónarmiða og vegna slysahættu þar sem vegir verða afar hálir við þessar aðstæður.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu þurftu að beita klippum síðla dags í gær til þess að losa flutningabíl sem ekið hafði verið undir Ölfusárbrú með þeim afleiðingum að hann sat þar fastur.

Áður en tekið var til þess ráðs að klippa flutningskassa bifreiðarinnar var búið að reyna ýmsar hefðbundnari leiðir til losunnar en allt kom fyrir ekki.

Um klukkustund tók að losa bifreiðina sem er stórskemmd en engar skemmdir var að sjá á brúarmannvirkinu við fyrstu skoðun utan þess að málning skrapaðist af stálbitum brúarinnar þar sem bíll og brú mættust.

Pétur Pétursson þriðjudagurinn 21. júní 2016

Banaslys á Suðurlandsvegi

Banaslys varð á Suðurlandsvegi þegar vörubifreið valt út af veginum vestan við Vík í Mýrdal um hádegisbil í gær.

Ökumaðurinn var einn í bifreiðinni og var hann úrskurðaður látinn á vettvangi.

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu fóru á vettvang með búnað til aðstoðar við slökkviliðið í Vík en mikið og gott samstarf er milli þessara tveggja slökkviliða.

Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

Pétur Pétursson miðvikudagurinn 8. júní 2016

Gróðureldur á Þingvöllum 7.6.2016

1 af 3

Tilkynnt var um gróðureld á þremur stöðum á Þingvöllum klukkan rúmlega tíu í gærkvöldi. Eldarnir loguðu í sinu í og við Almannagjá. Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni fóru á vettvang og slökktu eldana með góðri aðstoð nokkurra vegfarenda og landvarða. Að sögn Bjarna Daníelssonar, varðstjóra BÁ sem stýrði aðgerðum á vettvangi var sú aðstoð ómetanleg og virkilega vel þeginn.

Áður en slökkviliðsmenn mættu á svæðið voru fjórir landverðir þjóðgarðarins með vasklegri framgöngu búnir að vinna á eldinum að miklu leiti með öllum tiltækum áhöldum sem þeir náðu til.

Það vildi svo til að eldurinn logaði í graslendi þar sem ekki var trjágróður og því varð ekki stórkostlegt tjón af eldinum. Erfitt var þó að athafna sig við slökkvistörfin þar sem klöngrast þurfti upp brekkur og kletta til þess að komast að eldinum.

Afar þurrt er um þessar mundir á Þingvöllum og íkveikihætta því mikil. Rétt er því að brýna það fyrir fólki sérstaklega að fara varlega með eld og fylgjast með náunga sínum í meðförum á eldi en talið er að þarna hafi verið um íkveikju að ræða. Þingvellir eru ein af helstu náttúruperlum okkar Íslendinga og því afar mikilvægt landsmenn hjálpist að við að tryggja öryggi hennar.

 

Á einni af meðfylgjandi myndum má sjá þrjár af hjálparhellum slökkviliðsmannanna en þau heita Berglind Eva Eiríksdóttir, Helaga Valtýsdóttir og Herluf Ingvar Clausen. Gunnar Rafnsson beitti sér einnig af hörku við slökkvistörfin en því miður er ekki til mynd af honum.

Brunavarnir Árnessýslu færa ykkur sínar bestu þakkir góða fólk!

Pétur Pétursson mánudagurinn 6. júní 2016

Sinueldur í Hellisskógi 5.6.2016

1 af 3

Tilkynning barst til Brunavarna Árnessýslu um sinueldi í Hellisskógi við Selfoss um klukkan níu í gærkvöldi. Hellisskógur liggur á bökkum Ölfusár norðan við Selfoss. Mikil vinna hefur verið lögð í ræktun á svæðin af skógræktarfélagi Selfoss frá árinu 1986 og spannar skógurinn nú um 72 hektara þar sem yfir tvöhundruð þúsund plöntum hefur verið plantað. Það er því ljóst að ef til yfirgripsmikils gróðurelds kæmi gæti tjón orðið ómetanlegt.

Ekki er ljóst á þessari stundu út frá hverju kviknaði en ekki er ólíklegt að það hafi verið út frá sígarettu. Nokkrar tilkynningar um eldinn bárust Neyðarlínu og þar með ein frá flugmanni er flaug yfir. Flugmaðurinn hafði góða yfirsýn úr lofti og gat leiðbeint slökkviliðsmönnum að eldinum.

Gras er orðið nokkuð gróið í sverðinum sem hægir á útbreiðslu eldsins en allmikil sina er þó enn í náttúrunni og því útbreiðsluhætta elds allnokkur. Nái eldurinn að læsa sig í barrtré er hætta á kraftmiklum bruna og því afar mikilvægt að fólk fari varlega með eld.

 

http://hellisskogur.is/hellisskogur.html

 

Vefumsjón