Haukur Grönli föstudagurinn 3. nóvember 2017

Nýliðar í inntökuferli

Nýliðar hjá Brunavörnum Árnessýslu

Um þessar mundir eru umsækjendur hjá Brunavörnum Árnessýslu á fullu í inntökuferlinu.

Hluti af inntökuferlinu er þrekpróf. Arndís Tómasdóttir tók þrekprófið um daginn og stóðst það með glans. Hún sýndi það að konur eiga fullt erindi í slökkvilið (en við vissum það nú alveg).


Við hjá Brunavörnum Árnessýslu erum mög ánægð með að Arndís verði í útkallsliðinu okkar en nokkuð langt er síðan við höfum haft slökkviliðskonu innan okkar raða. Vonandi er þetta bara byrjunin á því sem koma skal.

Pétur Pétursson mánudagurinn 30. október 2017

Eldur í uppþvottavél í Hveragerði 30.10.2017 

1 af 2

Eldur kom upp í uppþvottavél í Hveragerði rétt fyrir klukkan níu í morgun. Eldur virðist hafa kviknað í rofaborði vélarinnar út frá rafmagni. Húsráðandi varð eldsins var strax í upphafi og náði að slökkva hann með léttvatnsslökkvitæki áður en eldurinn náði að læsa sér í húsbúnað og áður en slökkviliðsmenn komu á vettvang. 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði aðstoðuðu íbúa hússins við reykræstingu en nokkur reykur hafði myndast við brunann. 

Komast þínir gestir út? 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Selfossi komu saman á þriðjudagskvöldið til þess að æfa björgun fastklemmdra úr stórum ökutækjum en áhersla er lögð á slíkar æfingar á öllum slökkvistöðvum BÁ í þessum mánuði. 

Æfingarnar eru byggðar þannig upp að í upphafi er haldin stuttur fyrirlestur um markmið æfingarinnar auk þess sem fjallað er um verkefnið sem á að leysa og þann búnað sem við höfum til þess að leysa það. Að loknum fyrirlestri halda slökkviliðsmennirnir á æfingarsvæði þar sem tekið er á verkefninu með höndunum með þeim búnaði sem tiltækur er. 

Á þessari æfingu hélt Jóhann Fannar Pálmarsson, slökkviliðsmaður, erindi um loftpúða í bílum auk þess sem hann sýndi mönnum virkni þeirra og þar með þá hættu sem af þeim getur stafað fyrir björgunarmenn. 

Virkilega flott æfing og vel skipulögð af þjálfunarstjóra og leiðbeinendum Brunavarna Árnessýslu. 

Síðastliðin laugardag stóðu Brunavarnir Árnessýslu í tengslum við námsstefnu Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (Á vakt fyrir Ísland), fyrir sýningu á viðbrögðum Norskra viðbragðsaðila við yfirstandandi fjöldadrápum. Norskur fyrirlesari, Tor Audun Kleppe, flutti á föstudeginum erindi um það verklag sem innleitt hefur verið í Noregi þegar atburðir sem þessir eiga sér stað en þá eru slökkviliðsmenn þjálfaðir til þess að tefja fyrir eða stöðva geranda eða gerendur slíkra voðaverka þegar langt er í sértæka hjálp lögreglu eða sérsveitar. 

Á laugardeginum stýrði Tor Audun svo sýningu fyrir námsstefnugesti á þessu verklagi í Sunnulækjaskóla á Selfossi. Til þess að sýningin mætti vera sem raunverulegust lánuðu Lögreglustjóraembættið á Suðurlandi, Sérsveit Ríkislögreglustjóra og Sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunnar Suðurlands, Brunavörnum Árnessýslu starfsfólk sem leikara til þess að fara með hlutverk viðbragðsaðila auk þess sem slökkviliðsmenn BÁ tóku að sér hlutverk slökkviliðsmanna. Þolendurna léku leikarar frá Fjölbrautaskóla Suðurland og gerendur léku slökkviliðsmaður og lögreglukona. 

Hér var um að ræða gjörning til þess að varpa ljósi á hvernig viðbragðsaðilar í Noregi hyggjast grípa inn í atburðarás af þessu tagi þegar það á við. Í framhaldi er síðan eðlilega þeirri spurningu velt upp hvort Íslenskir viðbragðsaðilar þurfi að huga að einhverju viðlíka skipulagi eða hvort við teljum að slíkt eigi ekki við um Ísland. Umræða er alltaf af hinu góða. 

Pétur Pétursson þriðjudagurinn 17. október 2017

Eldur í parhúsi á Selfossi í gærkvöldi 17.10.2017

Eldur í parhúsi á Selfossi í gærkvöldi 17.10.2017 Eldur kom upp í parhúsi á sjöundatímanum í gærkvöldi og voru slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi boðaðir á vettvang. Eldurinn hafði kviknað í þurrkara í annarri íbúðinni en húsráðendum hafði tekist að ráða niðurlögum eldsins með slökkvitæki áður en slökkviliðsmenn komu á vettvang. Talsvert var af reyk og sóti í íbúðinni og aðstoðuðu slökkviliðsmenn húsráðendur við að reykræsta. 

 

 

Vefumsjón