Haukur Grönli miðvikudagurinn 14. ágúst 2019

Gróðureldar

1 af 2

Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar út fyrir hádegi í dag vegna gróðurelda á Nesjavallaleið.

Ekki var um stórt svæði að ræða en eldurinn var í mosa. Eldur í mosa getur mallað í nokkurn tíma áður en hann tekur sig upp. Það getur því verið snúið að tryggja að ekki leynist glóð eða eldur í mosanum áður en vettvangur er yfirgefinn.

Það eru kjör aðstæður fyrir gróðurbruna í dag, gróður og jarðvegur er töluvert þurr og þarf því ekki mikið til að kveikja eld í honum. Glóð frá sígarettu getur verið nægjanleg til að kveikja eld og þegar að vindur er eins og hann hefur verið síðustu daga getur eldurinn breiðst hratt út.

Við viljum biðja ykkur um að fara varlega með eld og aðra hitagjafa nálægt gróðri. Hafið augun opin og bregðist við ef þið verðið elds vart.

Viljum að lokum einnig benda aftur á síðuna grodureldar.is þar sem hægt er að finna mikið af góðri fræðslu.

Haukur Grönli fimmtudagurinn 1. ágúst 2019

Gengið af göflunum

1 af 2

Um verslunarmannahelgina munu slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu, Slökkviliði Akureyrar, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Brunavörnum Austur-Húnvetninga hlaupa 340 km leið til að safna áheitum fyrir hitakassa á barnadeild Sjúkrahúss Akureyrar. Hlaupaleiðin er ekki af hefðbundnum toga. Hlauparar munu leggja af stað á á föstudaginn frá slökkvistöðinni á Akureyri og sem leið liggur yfir Sprengisand og enda á sunnudaginn í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi.

Með þeirra orðum:

Þetta verður sem sagt löng og krefjandi leið ... líklega þurfum við nokkra plástra og smá svefn eftir þetta en það verður þess virði. Við erum 6 hlaupara og við myndum gleðjast mikið ef þið mynduð sýna okkur þann stuðning sem við erum að sækja eftir. Það væri okkur mikil ánægja ef þið myndum heita á þetta hlaup með leggja einhverja smá upphæð á reikning Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Akureyri en við erum einmitt núna í samvinnu með þeim að safna fyrir hitakössum á barnadeildina og Gjörgæslu Sjúkrahússins.
Kennitala hollvinasamtakanna er 640216-0500 og reikningsnúmer 0565-26-10321

Ekki væri verra ef þið gætuð montað ykkur af því að hafa stutt við okkur og deilt því með vinum ykkar og svo á síðunni okkar Gengið af Göflunum. Hlaup og sviti!!! 
kv
Hörður

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með og styrkja þessar hetjur, hér er slóðinn á viðburðinn.
https://www.facebook.com/events/456639478505372/

Við erum stolt af að eiga fulltrúa í þessum hóp, það er hann Sigurður Páll slökkviliðsmaður Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði.

Góða ferð 

Haukur Grönli miðvikudagurinn 31. júlí 2019

Eldsvoði í Hafnarfirði

1 af 4

Félagar okkar í Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins eru búnir að standa í ströngu í nótt og eru enn að.

Eldur kviknaði í stóru iðnaðarhúsi í Hafnarfirði, þar sem meðal annars fer fram fiskvinnsla, það er mikill eldsmatur í húsinu og við mikinn eld að eiga. Allt tiltækt lið SHS var kallað út.

Óskað var eftir aðstoð frá nágranna slökkviliðum og urðum við auðfúsir við þeirri ósk og sendum þeim dælubíl með fimm manna áhöfn frá Brunavörnum Árnessýslu.

Væntanlega er mikið eignatjón en sem betur fer ekki slys á fólki.

 

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti með áhöfn sinni á þyrlupallinum milli Sjúkrahúss Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Björgunarmiðstöðvarinnar á Selfossi síðastliðin laugardagsmorgun. 

Búið var að skipuleggja æfingu með þyrluáhöfninni og slökkviliðsmönnum Brunavarna Árnessýslu sem voru á helgarvakt á Slökkvistöðinni á Selfossi. 

Heimsóknin byrjaði á almennu spjalli að vanda þar sem farið var yfir búnað hvers annars. Hvað er hægt að taka með í þyrluna vegna slysa- og eldvettvanga. 

Að sjálfsögðu voru Lögreglan og sjúkraflutningamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands með í för og spjalli. 

Þyrlan fór síðan í loftið með fjóra slökkviliðsmenn ásamt áhöfn þyrlu. 

Flogið var að Eyvík í Grímsnesi þar sem æfð var vatnstaka í poka úr Hestvatni sem síðan var sleppt á fyrir fram ákveðin svæði. Á leiðinni æfðu menn notkun hitamyndavéla BÁ með tilliti til leitar, björgunar og gróðurelda. 

Æfingin var í allastaði vel heppnuð og verður án efa til eflingar samstarfs og samræmingar á vinnubrögðum. 

1 af 2

Harður árekstur tveggja bíla er komu úr gagnstæðri átt varð við gatnamót Eyrarbakkavegar og Gaulverjabæjarvegar um klukkna hálf fjögur á laugardaginn.  

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu þurftu að beita þurfti klippum til þess að ná einni manneskju út úr öðrum bílnum en alls voru fimm manns í bílunum. 

Sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands fluttu alla fimm til skoðunar á slysadeild. 

Talsverða olíu og brak þurfti að hreinsa af veginum áður en hægt var að opna hann að nýju fyrir umferð. 

Talsverða olíu og brak þurfti að hreinsa af veginum áður en hægt var að opna hann fyrir umferð að nýju. 

Vefumsjón