Pétur Pétursson föstudagurinn 16. nóvember 2018

Góðir gestir frá 112 í dag 15.11.2018

Við fengum góða gesti frá Neyðarlínunni í dag til skrafs og ráðagerða. Þeir félagar Vilhjálmur Halldórsson og Hjalti Sigurðsson neyðarverðir, brugðu undir sig betri fætinum og óku frá borginni yfir í Árnessýslu. Við áttum gott samtal um snertifleti Brunavarna Árnessýslu og Neyðarlínunnar sem eru ansi margir og margslungnir oft á tíðum. Það er virkilega gott að festa andlitin betur við raddirnar sem við heyrum í fjarskiptunum en neyðarverðir 112 eru þeir aðilar sem boða í langflest útköll viðbragðsaðila á landinu. Það má segja að þeir séu framvarðasveit bráðaþjónustu á landinu.

Pétur Pétursson miðvikudagurinn 14. nóvember 2018

Pétur færir Pétri mynd að gjöf

Pétur Gabríel Gústavsson, 18 ára nemandi í Fjölbrautarskóla Suðurlands, færði Pétri Péturssyni slökkviliðsstjóra BÁ mynd að gjöf sem hann hafði sjálfur gert. 

Pétur Gabríel er mikill áhugamaður um slökkvilið og brunavarnir almennt og vildi sýna það í verki með þessari flottu gjöf. 

Við færum honum okkar bestu þakkir fyrir velviljann og þann tíma og vinnu sem hann lagði í verkið. 

Ný stjórn Brunavarna Árnessýslu kom saman í fyrst sinn í dag föstudaginn 24. ágúst. Eyþór H. Ólafsson og Ingibjörg Harðardóttir voru í stjórn BÁ áður en ný inn í stjórn eru þau Arna Ír Gunnarsdóttir, Gísli Halldór Halldórsson og Halldóra Hjörleifsdóttir. 

Slökkviliðsstjóri hélt Stutta kynningu á starfsemi slökkviliðsins í upphafi fundar en síðan tóku við mál sem biðu fundarins. Flestir stjórnarmenn eru starfseminni vel kunnugir eftir áralangt starf í sveitarstjórnarmálum í Árnessýslu. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá frá vinstri, Unnu Björg Ögmundsdóttur starfsmann BÁ, Örnu Ír Gunnarsdóttur frá Árborg, Gísla H. Halldórsson frá Árborg, Eyþór H. Ólafsson frá Hveragerði, Ingibjörgu Harðardóttur frá Grímsnes- og Grafningshrepp, Halldóru Hjörleifsdóttur frá Hrunamannahrepp og Pétur Pétursson slökkviliðsstjóra BÁ. 

1 af 2

Eldur kom upp í um það bil 200 fermetra pökkunarhúsi við garðyrkjustöðina Reykjaflöt norðan við Flúðir rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi. 

Þegar að slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá starfseiningunni á Flúðum bar að garði var umtalsverður eldur í húsinu. Greiðlega gekk að ná tökum á eldinum og var hann að mestu slökktur um 20 mínútum eftir að slökkviliðsmenn bar að garði. 

Vindátt var hagstæð við slökkvistarfið þannig að aðrar byggingar voru ekki í hættu. 

Alls komu um 30 slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu að slökkvistarfinu frá starfsstöðvum á Flúðum, Reykholti, Laugarvatni og Selfossi, sem lauk um klukkan 00:30. 

Eldsupptök eru ókunn en Lögreglan á Suðurlandi fer með rannskókn málsins. 

Haukur Grönli sunnudagurinn 15. júlí 2018

Reykskynjarar bjarga mannslífum.

1 af 4

Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar út í nótt vegna elds í sumarbústað ásamt lögreglunni á Suðurlandi og sjúkraflutningum HSU.

Útkallið kom rétt fyrir fimm í morgun. Í bústaðnum voru fjórar manneskjur sem vöknuðu við reykskynjara og komust þess vegna út þrátt fyrir mikinn reyk og hita.

Sjúkraflutningar HSU á suðurlandi fluttu öll fjögur á sjúkrahús vegna gruns um reykeitrun.

Þegar útallið barst var slökkvistöð Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði að vinna í heitavatnsleka og var slökkvistöð Brunavarna á Selfossi því kölluð í brunann. Vel gekk að slökkva eldinn þegar komið var á vettvang þrátt fyrir mikinn eld.  Rannsókn á eldsupptökum er í höndum lögreglu.

Það er okkur ljóst og það verður aldrei of oft sagt að reykskynjarar og slökkvitæki geta bjargað mannslífum.

Vefumsjón