Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í uppsveitum komu saman í gærkvöldi til þess að skerpa á og við halda kunnáttu sinni. Að þessu sinni æfðu þeir hurðarrofstækni (að brjótast inn á hraðan og öruggan hátt), notkun innfrarauðra myndavéla (hitamyndavéla) við leit og björgun í reykköfun og umhirðu reykköfunartækja. 

Vel var mætt á æfingunna og vilji manna til fagmennsku greinilega mikill.

Pétur Pétursson mánudagurinn 19. nóvember 2018

Flottir kallar í námi

1 af 3

Þessir flottu slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu eru um þessar mundir í námi Brunamálaskóla Mannvirkjastofnunar fyrir slökkviliðsmenn í fullu starfi. Náminu er skipt upp í nám fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn og svo fyrir slökkviliðsmenn í fullu starfi en það er talsvert lengra en hið fyrrnefnda. Allir eru þeir búnir að klára nám fyrir hlutastarfandi menn en þá þyrsti í meiri fróðleik og þjálfun til þess að mæta enn betur þeim krefjandi aðstæðum sem oft á tíðum skapast í störfum slökkviliðsmanna. 

Námið fer að mestu leiti fram í Reykjavík hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en núna eru nemendur í nokkra daga í kennslu hjá sínum heimaliðum. 

Á meðfylgjandi myndum má sjá slökkviliðsmennina með leiðbeinendum fara yfir hlutverk, skipulag og búnað stjórnanda reykkafara og búnað reykkafara.

Aðgerðir viðbragðsaðila krefjast í flestum tilfellum margra einstaklinga til starfa. Í fréttamyndum sjáum við oftast þá sem starfa á vettvangi en oft á tíðum gleymast þeir sem starfa á baki þeirra sem á vettvangi eru.  Þar má helst nefna starfsfólk Neyðarlínunnar sem boðar í útköllin og síðan þá sem vinna að heildarskipulagi aðgerða á meðan á þeim stendur en það eru meðal annars þeir sem vinna í aðgerðastjórnstöðvum. Þetta geta verið aðilar frá hinum ýmsu viðbragðsaðilum. 

Mikið álag ef oft á tíðum á björgunaraðilum í Árnessýslu og Suðurlandi öllu og er því farið af stað verkefni í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi um uppbyggingu öflugrar aðgerðastjórnstöðvar sem er samstarfsverkefni allra þeirra sem að björgunarmálum koma á svæðinu. Uppsetning stjórnstöðvarinnar er í fullum gangi um þessar mundir og er hún unnin í áföngum eftir því sem fjárhagur og tími leyfa. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá snillingana og sérfræðingana Frímann Birgir Baldursson, varðstjóra hjá Lögreglunni á Suðurlandi og Lárus Kristinn Guðmundsson, varðstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, önnum kafna við uppsetningavinnu og spekúleringar.

Pétur Pétursson föstudagurinn 16. nóvember 2018

Góðir gestir frá 112 í dag 15.11.2018

Við fengum góða gesti frá Neyðarlínunni í dag til skrafs og ráðagerða. Þeir félagar Vilhjálmur Halldórsson og Hjalti Sigurðsson neyðarverðir, brugðu undir sig betri fætinum og óku frá borginni yfir í Árnessýslu. Við áttum gott samtal um snertifleti Brunavarna Árnessýslu og Neyðarlínunnar sem eru ansi margir og margslungnir oft á tíðum. Það er virkilega gott að festa andlitin betur við raddirnar sem við heyrum í fjarskiptunum en neyðarverðir 112 eru þeir aðilar sem boða í langflest útköll viðbragðsaðila á landinu. Það má segja að þeir séu framvarðasveit bráðaþjónustu á landinu.

Pétur Pétursson miðvikudagurinn 14. nóvember 2018

Pétur færir Pétri mynd að gjöf

Pétur Gabríel Gústavsson, 18 ára nemandi í Fjölbrautarskóla Suðurlands, færði Pétri Péturssyni slökkviliðsstjóra BÁ mynd að gjöf sem hann hafði sjálfur gert. 

Pétur Gabríel er mikill áhugamaður um slökkvilið og brunavarnir almennt og vildi sýna það í verki með þessari flottu gjöf. 

Við færum honum okkar bestu þakkir fyrir velviljann og þann tíma og vinnu sem hann lagði í verkið. 

Vefumsjón