Haukur Grönli fimmtudagurinn 10. ágúst 2017

Nýr Dælubíll

1 af 2

Brunavarnir Árnessýslu munu á morgun, föstudaginn 11.08.2017 kl. 13:00, taka í notkun nýjan dælubíl í Björgunarmiðstöðinni Selfoss.

Síðustu vikur hafa farið í að kenna slökkviliðsmönnum á bílinn og standsetja hann.

Dælubíllinn er einkar glæsilegur og sómi af að fá til viðbótar við tækjakost okkar í Brunavörnum Árnessýslu.

Brunavarnir Árnessýslu fengu ansi hreint skemmtilega heimsókn frá Danmörku í dag en um var að ræða tólf hressar konur í óvissuferð. Ferðina skipulagði og stjórnaði heilsuræktar mógúllinn Birgir Konráðsson betur þekktur sem Biggi í Bootcamp. 

Dömurnar fengu skemmtilegt verkefni til að leysa en það var að spila "fótbolta" með vatni. Einungis tvær reglur voru í gildi í keppninni en þær voru að ekki mátti snerta boltann með höndum og ekki mátti snerta hann með fótum. Mjög svo fagleg og ýtarleg teikning var síðan lögð til grundvallar fyrir slöngulagnirnar sem þær þurftu að leggja út sjálfar. 

Skemmtileg keppni sem sem endaði auðvitað með sigri annars liðsins án teljandi meiðsla þrátt fyrir ríkjandi keppnisskap allra aðila.

Unna Björg Ögmundsdóttir þriðjudagurinn 13. júní 2017

Eldur í rafmagnstöflu

1 af 2

Brunavarnir Árnessýslu fengu í nótt tilkynningu um eld innandyria í gistihúsi á Stokkseyri. Þegar vakthafandi varðstjóra BÁ og lögreglu bar að garði slökktu þeir eldinn, sem reyndist vera í rafmagnstöflu, með duftslökkvitæki. Stuttu síðar kom dælubíll með reykköfurum á vettvang og fóru reykkafarar inn og slökktu í þeim glæðum sem eftir voru. Reykræsta þurfti húsnæðið að slökkvistarfi loknu. Ekki varð teljandi tjón á fasteigninni vegna eldsins og ekki er vitað til þess að gestum gistiheimilisins hafi orðið meint af vegna atviksins.

Pétur Pétursson mánudagurinn 22. maí 2017

Eldur í gróðri um helgina.

Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnessýslu voru þrívegis kallaðir út um helgina vegna elds í gróðri, tvisvar sinnum á laugardaginn, í Grafninginn og Flóann og aftur í Grafninginn á sunnudaginn.

Í báðum tilfellum á laugardaginn mátti rekja eldsupptök til óleyfis ruslabrennu sem fór út böndunum en upptök eru óljós hvað varðar eldinn á sunnudag.

Við hjá Brunavörnum Árnessýslu viljum eindregið benda fólki á að ekki er leyfilegt að brenna rusl.

Ný slökkvistöð Brunavarna Árnessýslu í Árnesi er nú óðum að taka á sig mynd. Slökkvistöðin verður afhent innan tíðar fullbúin til þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er þar en gert er ráð fyrir að slökkvibifreið, mannskaps- og tækjabifreið og dælukerra verði staðsett í stöðinni ásamt starfsmannaaðstöðu. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá slökkviliðsmanninn og ofurmúrarann Jóhann Gunnar Friðgeirsson þar sem hann er að slípa gólfplötu slökkvistöðvarinnar.

Vefumsjón