Pétur Pétursson fimmtudagurinn 2. mars 2017

Öskudagur í gær 1.3.2017

Líflegt var á slökkvistöðinni á Selfossi í gær en þangað streymdu hinar ýmsu kynjaverur til þess að syngja fyrir starfsfólk slökkviliðsins og uppskera að launum eitthvert góðgæti. Virkilega skemmtilegur dagur að baki með miklum söng. 

Meðfylgjandi eru myndir af nokkrum af okkar skrautlegu gestum. 

1 af 2

Tækjabíll Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði var kallaður út rétt fyrir klukkan níu í morgun vegna bílveltu milli Hveragerðis og Selfoss. Afleit færð var á Suðurlandsvegi á þessum tíma, krapi og talsverð ofankoma. Slysið atvikaðist með þeim hætti að ökumaður missti stjórn á bifreiðinni vegna krapa á veginum og endaði hann utan vegar á toppnum ofan í skurði. Tveir menn voru í bílnum og komust þeir ekki út af sjálfsdáðum vegna legu bifreiðarinnar í skurðinum. Það vildi þeim til happs að ekki var mikið vatn í skurðinum á þessum stað en engu að síður voru þeir blautir og kaldir. 

Greiðlega gekk að ná mönnunum út eftir að slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningsmenn komu á vettvang. Ökumaður og farþegi voru síðan fluttir með sjúkrabílum Hsu á sjúkrahús til nánari skoðunar en ekki er talið að þeir hafi hlotið alvarleg meiðsl.

Eldur kom upp í garðyrkjustöð í Hveragerði laust fyrir miðnætti síðastliðið laugardagskvöld. Eldurinn var staðbundin á rækturnarborði í einu af gróðurhúsum stöðvarinnar. Ræktunarborðin eru svokölluð flóð- og fjöru vökvunarborð sem gerð eru úr plastefnum. Svo virðist sem kviknaði hafi í einu borðinu út frá rafmagnsbúnaði með þeim afleiðingum að hluti af borðinu brann og húsið fylltist af reyk. 

Er slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu komu á vettvang var Lögreglumaður (sem reyndar er líka slökkviliðsmaður hjá BÁ í hlutastarfi), búin að slökkva eldinn með slökkvitæki úr lögreglubílnum. Slökkviliðsmenn BÁ reykræstu síðan gróðurhúsið og efhentu lögreglu formlega vettvanginn til rannsóknar. 

Ekki er vitað á þessari stundu hversu mikið tjón hlaust af eldinum en ljóst er að allnokkuð ræktunartjón hefur orðið þar sem framleiðsla á matvöru fer fram í húsinu.

Unna Björg Ögmundsdóttir föstudagurinn 10. febrúar 2017

Æfing fyrir Brunavarnir Rangárvallasýslu

Laugardaginn 28.janúar sl. komu níu manns frá Brunavörnum Rangárvallasýslu á æfingu hjá BÁ. Byrjað var á að æfa yfirtendrun í æfingargámi BÁ og þá sérstaklega með tilliti til hættumerkja og vinnubragða, notkunar á stútum og inngöngu í eldrými. Að því loknu tók við reykköfunaræfing með áherslu á yfirleitaraðferðir, björgun fólks úr reykfylltu rými og fjarskipti. Eins skoðuðu gestirnir björgunarklippur og hitamyndavélar sem BÁ eiga.

Allir voru sammála um að æfingin væri góð og gagnleg en leiðbeinendur frá BÁ voru þeir Jón Þór Jóhannsson og Lárus Kristinn Guðmundsson.

Unna Björg Ögmundsdóttir fimmtudagurinn 9. febrúar 2017

Æfingar janúarmánaðar

1 af 4

Æfingaáætlun BÁ er mjög fjölbreytt. Áherslur janúarmánaðar voru þær sömu á öllum stöðvum, vinna á þökum þar sem björgunarsagir, fallvarnarbúnaður og körfubíllinn voru í aðalhlutverki. Björgunarsagirnar eru öflug tæki sem hægt er að nota til að rjúfa þök og veggi sem hjálpar okkur að hleypa út reyk sem er okkar mesti óvinur í eldi.
Fallvarnarbúnaðurinn er nauðsynlegur öryggisbúnaður til að tryggja að slökkviliðsmenn falli ekki við vinnu í hæð.

Leyfum myndunum að tala sínu máli en fleiri myndir má finna á facebooksíðu Brunavarna.

Vefumsjón