Haukur Grönli miðvikudagurinn 17. janúar 2018

Eldur í Hellisheiðarvirkjun 12.janúar 2018

Föstudaginn 12.janúar kl. 11:26 barst Hveragerðiseiningu hjá Brunavörnum Árnessýslu boð frá Neyðarlínu um eld í Hellisheiðarvirkjun. Strax var ljóst að stórt verkefni var fyrir höndum og var þá Þorlákshafnareining og Selfosseining einnig boðaðar út, ásamt Sjúkraflutningum á Suðurlandi og Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins. Árnessýsla er stór og því er ekki hægt að kalla allar stöðvar í eitt útkall. Þess vegna voru slökkvistöðvarnar á Laugarvatni, Reykholti, Flúðum og Árnesi á bið þó kallað hafi verið í mannskap þaðan.

Eldurinn kom upp í loftræstirými virkjunarinnar og var töluverður reykur og eldur upp úr þaki þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Fljótlega voru reykkafarateymi tilbúin til atlögu og nálguðust eldinn úr tveimur áttum ásamt því að slökkviliðsmenn fóru upp á þak í körfubílum slökkviliðanna til að rjúfa þakið og hleypa reyk og hita út.

Þrátt fyrir að vettvangur hafi ekki litið vel út í byrjun og allir aðilar vitað að mikið lægi undir að slökkva eldinn áður en hann hefði varanleg áhrif á starfsemi virkjunarinnar gekk vel að ná tökum á eldinum sem breiddist þó út í þakklæðningu og -einangrun. Um leið og talið var öruggt var farið í verðmætabjörgun, það er að verja tölvubúnað, golf og starfsemina fyrir vatns og reykskemmdum.

Um klukkan 14 var búið að ná tökum á eldinum og fóru þá slökkviliðsmenn frá SHS að flytja búnað og mannaskap til Reykjavíkur. Eldurinn blossaði þó upp aftur kl. 16.40 og tókst slökkviliðsmönnum frá BÁ að ráða niðurlögum hans. Vegna mikils hita í veggjum er ekki óeðlilegt að eldur blossi upp aftur þrátt fyrir að búið sé að ná tökum á vettvangi. Brunavarnir Árnessýslu með vakt á staðnum alla nóttina til að fylgjast með rýminu sem kveiknaði í með hitamyndavélum og rífa klæðningu niður þar sem hiti gæti hugsanlega leynst.

Fyrstu slökkviliðsmenn frá BÁ luku störfum um klukkan 17. Um kvöldmatarleytið fór svo meginhluti slökkviliðsmanna heim og aðrir slökkviliðsmenn komu á staðinn til að vakta um kvöldið og nóttina. Slökkviliðsmenn voru á vaktinni fram að hádegi á laugardeginum en þá var lögreglu afhentur vettvangurinn til rannsóknar.

Fjöldi slökkviliðsmanna frá öllum stöðvum Brunavarna Árnessýslu tóku þátt í slökkvistarfi, flestir
frá Þorlákshöfn, Hveragerði og Selfossi. Þegar mest var voru um 80 slökkviliðsmenn á vettvangi frá Brunavörnum Árnessýslu og Slökkviliði Höfuðborgarsvæðisins. Á vettvang komu 12 tæki frá Brunavörnum Árnessýslu auk þess sem nokkrir slökkviliðsmenn komu á staðinn á eigin bíl. Vinnustundir BÁ manna voru samtals 407 á meðan á aðgerðum stóð en töluverð eftirvinna er eftir svona stórt verkefni í frágangi, yfirferð og viðgerð á búnaði og tækjum.

Það er alveg ljóst að þær æfingar sem Brunavarnir Árnessýslu og Orka náttúru halda fjórum sinnum á ári skiluðu sér á vettvangi bæði hvað varðar mannvirkið sjálft og starfsfólk virkjunarinnar. Samstarf tveggja stórra slökkviliða, Brunavarna Árnessýslu og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, gekk ótrúlega vel og unnu liðin saman sem ein heild og viljum við þakka SHS sérstaklega fyrir samstarfið. Aðrir aðilar sem komu á vettvang, þ.e. Sjúkraflutningar á Suðurlandi, Lögreglan á Suðurlandi og Landsbjörg, fá einnig þakkir fyrir vel unnin störf og hnökralaust samstarf.

Stjórnendur Brunavarna Árnessýslu eru mjög ánægðir hvernig til tókst í þessu stóra verkefni. Það má best sjá á því að ekkert tjón var á aflgjöfum virkjunarinnar og virkjunin skilaði fullum afköstum innan sólarhrings frá því að eldurinn kom upp. Því má einnig þakka öflugum brunahólfunum í virkjuninni sjálfri.

 

Pétur Pétursson fimmtudagurinn 21. desember 2017

Komast þínir gestir út? 

Mikið er rætt um ferðamennsku á Íslandi í dag og sitt sýnist hverjum. Hvaða skoðun sem fólk hefur á þeim iðnaði þá er það hins vegar staðreynd að þeir sem hingað koma til þess að skoða okkar fallega land eru okkar gestir. Langflestir okkar gesta dvelja hér í einhverja daga og þurfa þar með á gistingu að halda. Því miður er þar víða pottur brotinn. Sem betur fer eru margir þeirra sem selja gistingu með allt sitt á hreinu, öll leyfi klár og þar með, með öryggi sinna gesta í fyrirrúmi en okkur berast þó allt of oft spurnir af því að ekki séu flóttamöguleikar fyrir fólk ef upp kemur eldur og jafnvel í sumum tilfellum eru ekki einu sinni reykskynjarar í dvalarrýmum gesta. Það má í sumum tilfellum segja að gestir okkar eigi engan séns ef upp kemur eldur, það er að segja, engin búnaður er til þess að vara fólk við hættunni þannig að hægt sé að komast út í tæka tíð og ef eina leiðin inn í svefnrými gestanna lokast vegna elds og eða reyks, er engin önnur leið til þess að flýja í öruggt skjól. 

Ábyrgð þeirra er bjóða fólki gistingu er mikil, þeir bera ábyrgð á því að gestir þeirra bæði verði varir við hættu ef hún steðjar að og að þeir komist heilir og höldnu í öryggi. 

Það að fólk komist á öruggan hátt út úr byggingum er ekki einskorðað við þá sem bjóða gistingu gegn gjaldi. Í þessu samhengi þarf hver og einn að huga að sínum heimagarði hvort sem er á heimilum eða stöðum þar sem fólk kemur saman til samveru eða skemmtana. Flóttaleiðir þurfa að vera greiðfærar og ekki er nóg að fólk komist undir bert loft heldur þarf það að komast á öruggan hátt í öruggt umhverfi eftir að út er komið. Sé flóttaleiðin úr kjallara þarf fólk að komast upp, sé flóttaleiðin af annarri hæð eða ofar þarf að vera öruggur stigi með fallvörn þar sem ekki er hætta á að fólk falli til jarðar. 

Um málaflokkinn eru lög og reglur í gildi og eftir þeim ber að fara en ekki er síður mikilvægt að við notum hyggjuvitið og hugsum "hvernig komast mínir gestir út á sem öruggastan hátt". 

Hugleiðingu ritar 
Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu 

Árekstur tveggja bíla varð á brúnni yfir Stóru-laxá í Hrunamannahrepp um klukkan tíu í morgun. Áreksturinn atvikaðist þannig að vöruflutningabifreið var ekið yfir brúna sem er einbreið, þegar að fólksbifreið var ekið inn á brúna úr gagnstæðri átt með þeim afleiðingum að fólksbifreiðin lenti framan á vöruflutningabifreiðinni. 

Mikill viðbúnaður var hjá viðbragðsaðilum vegna slyssins en sex manns voru í bifreiðunum. Tækjabíll frá Brunavörnum Árnessýslu á Flúðum var sendur á vettvang, lögregla, sjúkraflutningar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands auk vettvangshjálparteymis frá Flúðum fóru á vettvang.

Allir þeir aðilar sem voru í fólksbifreiðinni voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til nánari skoðunar en svo virðist sem að ekki hafi orðið alvarlegt slys á fólki við áreksturinn. 

Vegurinn er ennþá lokaður og verður um hríð meðan að unnið er að því að ná bílunum af veginum. 

Haukur Grönli miðvikudagurinn 13. desember 2017

Fræðsla í forgangsakstri

1 af 3

Forgangsakstur var tekin fyrir á æfingum desembermánaðar hjá Brunavörnum Árnessýslu. Norðmenn hafa í nokkur á verið með forgangsakstursnámskeið fyrir viðbragðsaðila sem tekur tvær vikur og endar með verklegu prófi hjá prófdómara frá ríkinu.

Lögreglan á Íslandi hefur kennt eftir þessari aðferð í nokkur ár.

Forgangsakstur er ekki að kveikja á sírenum, bláum ljósum og keyra eins hratt og hægt er. Forgangsakstur gengur út á að koma viðbragðsaðilum fljótt og örugglega á staðinn og stýra umferðinni þannig að ökumenn forgangsaksturs tækja þurfi ekki að sveigja mikið eða að vera í miklum hraðabreytingum.
Aðferðin sem er kennd við Noreg gengur út á notkun sírena og til viðbótar bláu ljósunum að blikka kösturum framan á viðbragðsbílunum. Með því að blikka kösturunum taktfast þá hefur það sýnt sig að umferðin tekur fyrr eftir forgangsaksturs tækjum og við getum stýrt umferðinni betur.

Við fengum Björgvin Óla, sjúkraflutningamann hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands, til að halda þessa fræðslu. Hafði hann sett saman mjög góðan fyrirlestur í samráði við Lögregluna á Suðurlandi og Brunavarnir Árnessýslu þar sem stuðst er við hina svokölluðu norsku-aðferð. Það var almenn ánægja með þessa fræðslu og fékk Björgvin Óli mikið hrós fyrir.

Lárus þjálfunarstjóri Brunavarna Árnessýslu fór svo yfir Tetra (talstöðvar) þar sem verið var að taka upp svokallað dulkóðað kerfi hjá lögreglu, sjúkraflutningum og slökkviliðum og samskipti í gegnum þær, talhópa o.fl.

 
Pétur Pétursson mánudagurinn 11. desember 2017

Bílvelta og eldur í bíl 08.12.2017 

1 af 2

Bílvelta varð síðastliðinn föstudag við vegamót Biskupstungnabrautar og Reykjavegar. Fimm ungmenni voru í bifreiðinni á leið heim úr skóla en engin alvarleg meiðsl urðu á þeim vegna atburðarins. 

Skömmu eftir að bifreiðinn valt kom upp eldur í henni sem breiddist hratt út. Það vildi ungmennunum til happs að engin festist í bifreiðinni en hún hafði lent í skurði. 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Reykholti voru fyrstir á staðinn og réðu þeir niðurlögum eldsins. Þeim til aðstoðar komu einnig slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá starfsstöðinni á Flúðum. 

Vefumsjón