Unna Björg Ögmundsdóttir þriðjudagurinn 13. júní 2017

Eldur í rafmagnstöflu

1 af 2

Brunavarnir Árnessýslu fengu í nótt tilkynningu um eld innandyria í gistihúsi á Stokkseyri. Þegar vakthafandi varðstjóra BÁ og lögreglu bar að garði slökktu þeir eldinn, sem reyndist vera í rafmagnstöflu, með duftslökkvitæki. Stuttu síðar kom dælubíll með reykköfurum á vettvang og fóru reykkafarar inn og slökktu í þeim glæðum sem eftir voru. Reykræsta þurfti húsnæðið að slökkvistarfi loknu. Ekki varð teljandi tjón á fasteigninni vegna eldsins og ekki er vitað til þess að gestum gistiheimilisins hafi orðið meint af vegna atviksins.

Pétur Pétursson mánudagurinn 22. maí 2017

Eldur í gróðri um helgina.

Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Árnessýslu voru þrívegis kallaðir út um helgina vegna elds í gróðri, tvisvar sinnum á laugardaginn, í Grafninginn og Flóann og aftur í Grafninginn á sunnudaginn.

Í báðum tilfellum á laugardaginn mátti rekja eldsupptök til óleyfis ruslabrennu sem fór út böndunum en upptök eru óljós hvað varðar eldinn á sunnudag.

Við hjá Brunavörnum Árnessýslu viljum eindregið benda fólki á að ekki er leyfilegt að brenna rusl.

Ný slökkvistöð Brunavarna Árnessýslu í Árnesi er nú óðum að taka á sig mynd. Slökkvistöðin verður afhent innan tíðar fullbúin til þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er þar en gert er ráð fyrir að slökkvibifreið, mannskaps- og tækjabifreið og dælukerra verði staðsett í stöðinni ásamt starfsmannaaðstöðu. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá slökkviliðsmanninn og ofurmúrarann Jóhann Gunnar Friðgeirsson þar sem hann er að slípa gólfplötu slökkvistöðvarinnar.

E-vaktin hjá Brunavörnum Árnessýslu brá undir sig betri fætinum í hádeginu í dag og fór út að borða. Fyrir valinu varð veitingastaðurinn í Þrastalundi þar sem bornar voru fram fyrirmyndar eldbakaðar flatbökur sem glöddu svanga maga. Tilefnið var ærið en tveir meðlimir af E-vaktinni voru formlega að ljúka eldvarnaeftirlitsnámi frá Brunamálaskóla Mannvirkjastofnunar og munu í framhaldi af því taka stöðu verkefnastjóra á forvarnasviði BÁ. Við þessi tímamót voru þeim Unnu Björg Ögmundsdóttur og Þórarni Magnússyni formlega afhent útskriftarplögg frá Brunamálaskólanum auk þess sem tignarmerki á öxlum þeirra voru uppfærð til samræmis við nýjar starfsstöður. 

1 af 3

Umtalsverður gufuleki varð í Skiljuvatnslokahúsi í Hellisheiðarvirkjun um klukkan hálf tólf í dag. Þarna hafði pakkning í krana á gufulögn gefið sig með þeim afleiðingum að sjóðandi heit gufa sprautaðist inn í rýmið. Tveir menn voru við vinnu í húsnæðinu þegar að atvikið varð en þeir komust út af sjálfsdáðum án nokkurra meiðsla. 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu fóru á þak byggingarinnar með körfubíl til þess að opna fyrir lúgur svo hægt væri að hleypa mest allri gufunni út. Í framhaldi voru síðan reykkafarar sendir inn í rýmið til þess að loka fyrir kranann. Kraninn sem um ræðir er gríðar stór og tekur það bæði mikið afl og tíma að loka fyrir hann handvirkt. Það varð því slökkviliðsmönnunum mikið gleðiefni að komast að því að komin væri rafrænn búnaður í virkjunina sem reykkafarar gátu tekið með sér inn í rýmið og notað til þess að loka fyrir umræddan krana. 

Að vanda voru störf slökkviliðsmanna Brunavarna Árnessýslu á starfssvæði virkjunarinnar unnin í fullu samstarfi við starfsmenn Hellisheiðarvirkjunar og lauk störfum á vettvangi um klukkan hálf þrjú í dag. 

Vefumsjón