Pétur Pétursson fimmtudagurinn 30. mars 2017

Sýnileiki, sýnileiki og aftur sýnileiki!!

1 af 2

Brunavarnir Árnessýslu stefna að því að öll þeirra forgangstæki verði merkt í svokölluðum Battenburg merkingum innan skamms. 

Það er ljóst að ekki bera allir sama fegurðarskyn á merkingarnar en fegurð er ekki það sem málið snýst um. Merkingarnar eru fyrst og fremst til þess að auka öryggi björgunaraðila og borgara. Hinn almenni borgari verður mun betur var við þessi tæki í umferðinni með þessum merkingum ásamt forgangsljósabúnaði bílanna og hefur því enn betri tíma til þess að víkja ef á þarf að halda. Gríðarsterkt endurskin er í merkingunum og lýsast tækin nánast upp í myrkri sé á þau lýst með bílljósum. 

Ekki má heldur gleyma því að þegar bílslys verða og tæki slökkviliðs sem merkt eru á þennan hátt eru notuð til þess að skýla slysavettvangi, stundum í slæmu skyggni og myrkri, minnka enn líkurnar á að aðvífandi umferð keyri inn í vettvanginn með tilheyrandi afleiðingum fyrir þá sem þar starfa og þeirra sem eru hjálparþurfi.  

Slökkvilið, lögregla og sjúkraflutningar á suðurlandi hafa komið sér saman um að æðstu stjórnendur þeirra á stærri vettvöngum klæðist hvítum vestum til aðgreiningar. Er þetta gert til þess að auðvelda og skýra alla vinnu í kringum ákvarðanatöku á vettvangi og spara þar með tíma sem reynist oft dýrmætur þegar mikið liggur við. 

Í flestum tilfellum munu stjórnendur þessara viðbragðsaðila halda sig nálægt hver öðrum til þess að samræma alla ákvarðanatöku á sem skilvirkastan hátt og stytta boðleiðir. 

Brunavarnir Árnessýslu hafa tekið vestisvæðinguna skrefi lengra og hefur vakthafandi varðstjóri hjá þeim um nokkurt skeið klæðst rauðu vesti á vettvangi, stjórnandi reykkafara appelsínugulu og munu dælustjórar slökkviliðsins klæðast bláum vestum. Allt er þetta gert til þess að auka sjónrænt aðgengi á sem árangursríkastan hátt til þess að lágmarka þann tíma sem getur farið í að leita að viðkomandi aðila þegar á þarf að halda.

Pétur Pétursson þriðjudagurinn 28. mars 2017

Æfingar með hluta af vatnsflutningabílum BÁ

1 af 2

Það er víst jafn mikilvægt að viðhalda þekkingu og að ná sér í nýja. Hér tóku nokkrir öflugir slökkvarar sig saman til þess að æfa samkeyrslu vatnsöflunarbíla en eins og gefur að skilja er vatnsöflun eitt af mikilvægustu störfum slökkviliðsmanna. Ekki er alltaf hægt að treysta á að nægt slökkvivatn sé til staðar og því þarf öflug tæki til þess að flytja vatn að slökkvistað oft á tíðum.

1 af 2

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í Þorlákshöfn komu saman ásamt IR-myndavélaleiðbeinendum BÁ til þess að fræðast um gagnsemi þeirra við björgunarstörf. 

Þetta var síðasta æfingin af þessu tagi í mánuðinum en í apríl verða haldnar framhaldsæfingar í notkun IR-myndavélanna þar sem fræði og verkleg kunnátta verða tengd betur saman. 

Pétur Pétursson þriðjudagurinn 28. mars 2017

Æfing í Búrfellsvirkjun 25.3.2017

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu ásamt undanförum í Árnessýslu æfðu björgun úr þröngum rýmum og reykköfun í samstarfi við Landsvirkjun og Landsnet síðastliðin laugardag. Æfingin byrjaði á fyrirlestri frá Landsnetsmönnum þar sem björgunaraðilar voru fræddir um spennuvirki og helstu hættur er að þeim lúta. Virkjunarmannvirki Búrfellsstöðvar voru síðan skoðuð með tilliti til björgunaraðgerða og að lokum var keyrð verkleg æfing sem gekk út á að sprenging hefði orðið í spennuvirki. Reykkafarar leituðu mannvirkið og fundu tvo menn sem bjarga þurfti út. Annar mannanna var við þannig aðstæður að óskað var eftir sérhæfðum línumönnum vegna björgunarinnar og brugðust undanfarar í Árnessýslu hratt við því kalli og leystu verkefnið á snaran en jafnframt fagmannlegan hátt. 

Virkilega flott æfing sem allir geta gengið sáttir frá. 

Vefumsjón