Pétur Pétursson mánudagurinn 11. desember 2017

Eldur í bíl í Kömbunum 11.12.2017 

1 af 3

Eldur kviknaði í bíl í Kömbunum á tíunda tímanum í morgun. Slökkviliðsmenn frá starfsstöð Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði voru sendir á vettvang og slökktu þeir eldinn. Ökumaður var einn í bifreiðinni þegar að eldurinn kom upp og varð honum ekki meint af. 

Bíllinn er mikið skemmdur en brann þó ekki að öllu leiti. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá rafkerfi bílsins. 

1 af 2

Eldur kom upp í þurrkara í íbúðarhúsnæði í Hveragerði síðastliðið föstudagskvöld. 

Þegar íbúar húsnæðisins urðu eldsins varir réðust þau með duftslökkvitæki gegn eldinum en það dugði ekki til. Þau lokuðu þá hurðinni að rýminu og komu sér hið snarast út og hringdu á Neyðarlínuna 112 og óskuðu eftir aðstoð slökkviliðs. 

Þannig vildi til að slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Árnessýslu sem fékk útkallið var í næsta nágreni og var kominn á staðinn rétt eftir að útkallið barst. Hann mat aðstæður þannig að hann gæti á öruggan hátt farið inn með annað slökkvitæki og skotið á eldinn til þess að tefja fyrir útbreiðslu eldsins sem hann og gerði. 

Slökkviliðsmenn frá starfsstöð Brunavarna Árnessýslu í Hveragerði voru fljótir á vettvang á dælubíl og réðu að lokum endanlega niðurlögum eldsins með vasklegri framgöngu reykkafara. 

Það er ljóst að íbúar hússins hafa án efa komið í veg fyrir stórfellt tjón með sínu snarræði. Það er að segja, með því að hringja í 112 hið snarasta, hafa til taks slökkvitæki, nota það á réttann hátt og loka eldinn inni í rýminu þannig að súrefnisskortur skapaðist í umhverfi eldsins. 

Unna Björg Ögmundsdóttir fimmtudagurinn 23. nóvember 2017

Eldvarnaátak LSS sett í Sunnulækjarskóla 23.11

Í dag var eldvarnaátak LSS (Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna) opnað á landsvísu við hátíðlega athöfn í Sunnulækjarskóla á Selfossi. Nemendur hófu dagskrána með söngatriði og Stefán Pétursson, formaður LSS, ávarpaði nemendur í 3. og 4.bekk, starfsfólk og gesti og setti átakið formlega. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, ásamt Hauki Grönli, varaslökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu, sáu um eldvarnafræðslu fyrir nemendur 3.bekkjar og slökkviliðsmenn spjölluðu við krakkana sem höfðu frá ýmsu að segja. 


Á slaginu kl. 11 fór brunakerfið í gang og þar með rýmingaræfing. Æfingin tókst mjög vel enda eru nemendur og starfsfólk vant slíkum æfingum árlega. Allir nemendurnir, tæplega 670 talsins, voru komnir út úr skólanum á 4 mínútum og búið að fullvissa sig að engan vantaði 5 mínútum síðar. Kalt var úti og vindur en nemendurnir létu það ekki á sig fá og stóðu sig frábærlega. Eftir rýmingaræfinguna hélt skóladagurinn áfram hjá nemendunum og starfsfólk skólans fékk þjálfun í notkun slökkvitækja.

Brunavarnir Árnessýslu, Sjúkraflutningar HSu auk Lögreglunnar á Suðurlandi sýndu búnað sinn fyrir utan skólann og vakti það athygli nemandanna, sérstaklega þeirra yngstu.

Við viljum þakka starfsfólki og nemendum Sunnulækjarskóla fyrir góðar móttökur og skemmtilegan morgun. Á næstu dögum munu aðrir 3.bekkingar í sýslunni fá heimsókn frá eldvarnaeftirlitsmönnum og fræðslu um eldvarnir.

Haukur Grönli föstudagurinn 3. nóvember 2017

Nýliðar í inntökuferli

Nýliðar hjá Brunavörnum Árnessýslu

Um þessar mundir eru umsækjendur hjá Brunavörnum Árnessýslu á fullu í inntökuferlinu.

Hluti af inntökuferlinu er þrekpróf. Arndís Tómasdóttir tók þrekprófið um daginn og stóðst það með glans. Hún sýndi það að konur eiga fullt erindi í slökkvilið (en við vissum það nú alveg).


Við hjá Brunavörnum Árnessýslu erum mög ánægð með að Arndís verði í útkallsliðinu okkar en nokkuð langt er síðan við höfum haft slökkviliðskonu innan okkar raða. Vonandi er þetta bara byrjunin á því sem koma skal.

Pétur Pétursson mánudagurinn 30. október 2017

Eldur í uppþvottavél í Hveragerði 30.10.2017 

1 af 2

Eldur kom upp í uppþvottavél í Hveragerði rétt fyrir klukkan níu í morgun. Eldur virðist hafa kviknað í rofaborði vélarinnar út frá rafmagni. Húsráðandi varð eldsins var strax í upphafi og náði að slökkva hann með léttvatnsslökkvitæki áður en eldurinn náði að læsa sér í húsbúnað og áður en slökkviliðsmenn komu á vettvang. 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði aðstoðuðu íbúa hússins við reykræstingu en nokkur reykur hafði myndast við brunann. 

Komast þínir gestir út? 

Vefumsjón