Unna Björg Ögmundsdóttir miðvikudagurinn 8. febrúar 2017

Útköll í janúar

Seinni hluta janúarmánaðar voru tvö stór útköll af ólíkum toga hjá Brunavörnum Árnessýslu.

 

Fyrst ber að nefna bruna á Stokkseyri, 22.janúar, þar sem eldur kom upp í mannlausu einbýlishúsi. Þegar slökkviliðið bar að garði var húsið alelda og þar sem talið var fullvíst að það væri mannlaust þótti ekki ástæða til að tefla öryggi slökkviliðsmanna í hættu og senda þá inn í húsið. Slökkvistarfið fór því fram utanfrá og gekk nokkuð vel. Eldsupptök eru ókunn en Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn málsins.

 

29.janúar varð harður árekstur tveggja jeppa á Biskupstungnabraut við Búrfellsafleggjara. Betur fór en á horfðist og ekki þurfti að beita klippum til að ná fólki út úr bílunum. Hlutverk BÁ á vettvangi var engu að síðu fjölbreytt, m.a. lokun vega í samvinnu við lögregluna, aðstoð við sjúkraflutninga og hreinsun á vettvangi. Sjö manns voru fluttir á sjúkrahús og fóru tveir slökkviliðsmenn BÁ með í þá flutninga. Þessi vettvangur sýndi vel hversu mikilvægt er að allir viðbragðsaðilar þekki hver annan og vinni saman sem ein heild þegar kallið kemur.

Haukur Grönli fimmtudagurinn 19. janúar 2017

Sex menn Brunavarna Árnessýslu í körfubílapróf

1 af 4

 

Í gær fóru sex menn frá Brunavörnum Árnessýslu í Körfubílapróf, bætast þeir þar með í hóp hæfra körfubílamanna. 

Körfubíllinn er eitt af mörgum  mikilvægum tækjum slökkviliða, fyrst og fremst lífbjörgunartæki ef fólk hefur ekki komist út úr húsi á mörgum hæðum en einnig notaður til vinnu á þökum í eldum, þá geta slökkviliðsmenn unnið tryggt út frá körfubílnum til að rjúfa þök og hleypa reyk (brunagasi) út, er það einn mörgum þáttum í slökkvistarfi í byggingum ásamt því að kæla með vatni. Körfubíllinn er einnig búinn mónitor sem getur sprautað ca 2000 lítrum af vatni á mínútu. 

Körfubíllinn er stórt tæki og því nýtist hann í umferðarslysum til að skýla björgunarmönnum á vettvangi og getur aðstoðað lögregluna til að ná myndum af vettvangi ofan frá. Körfubíllinn eins og svo mörg af tækjum slökkviliða nýtist til margra þátta í björgunarstörfum.  

Haukur Grönli fimmtudagurinn 19. janúar 2017

Eldur í strætó

1 af 2

 

 

Seinnipartinn í gær barst tilkynning til Brunavarna Árnessýslu  um eld í strætó á áætlun í Biskupstungunum. 

Reykholtsstöðin og Flúðastöðin voru boðaðar út. Til allrar lukku voru engir farþegar um borð og var bílstjórinn búinn að slökkva með slökkvitæki sem að staðsett er í strætó þegar slökkvibílar komu á vettvang. 

Góð vísa um mikilvægi slökkvitækja og kunnátta í meðferð þeirra er aldrei of oft kveðin. 

 

Pétur Pétursson þriðjudagurinn 17. janúar 2017

Bílvelta á Hellisheið 16.1.2017

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Hveragerði voru boðaðir út rétt fyrir klukkan 18:00 síðdegis í gær vegna bílveltu ásamt lögreglu og sjúkraflutningamönnum. 

Vetraraðstæður voru á vettvangi, hálka og snjór. Ökumaður bifreiðarinnar virðist hafa misst stjórn á bifreiðinni sökum aðstæðna með þeim afleiðingum að hann lenti utanvega og fór eina veltu. Tvennt var í bílnum, karl og kona sem þörfnuðust þau aðstoðar við að komast út úr bílnum. Ekki þurfti þó að beita klippum slökkviliðsins. 

Slökkviliðsmenn hreinsuðu upp brak og önnur mengandi efni frá bílflakinu eftir að sjúkraflutningamenn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands fluttu fólkið til nánari skoðunar. 

Haukur Grönli þriðjudagurinn 3. janúar 2017

Bílslys á Suðurlandsvegi  02.01.2017  

1 af 3

 

Brunavarnir Árnessýslu voru kallaðar út í gærmorgun (2.jan) vegna tankbíls sem hafði oltið á Suðurlandsvegi milli Kjartansstaða og Bitru um klukkan hálf ellefu. 

Bílstjórinn var til allra lukku ekki mikið slasaður en beita þurfti klippum til að ná honum út. Úti var rigning, vindur og hiti um tvær gráður og því gott að koma hinum slasaða sem fyrst í skjól.  

Bíllinn var illa farinn og lokaði Suðurlandsveginum ásamt því að töluverð mjólk og olía láku úr honum. Brunavarnir sinntu hreinsun á staðnum bæði að ná upp sem mestu af olíunni og braki frá bílnum.  

Lögreglan á Suðurlandi lokaði veginum í um það bil tvær klukkustundir á meðan á björgunarstarfinu stóð.  

Bíllinn var óökuhæfur og þurfti að flytja hann af vettvangi á vöruflutningabíl með aðstoð kranabíls. 

Sjúkraflutningamenn frá HSu fluttu bílstjórann á sjúkrahús til frekari rannsókna.  

Vefumsjón