Pétur Pétursson mánudagurinn 7. janúar 2019

Bílvelta í Þrengslum í morgun 7.1.2018

Brunavarnir Árnessýslu fengu tilkynningu um bílveltu í Þrengslunum í morgun um klukkan hálf átta en mikil hálka var þá á þeim slóðum. 

Umfang slyssins var ekki að öllu leiti ljóst þar sem innhringjandi stoppaði ekki á vettvangi. 

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Þorlákshöfn fóru á vettvang með klippibúnað auk þess sem ákveðin hópur dagvinnumanna frá slökkvistöðinni á Selfossi lögðu af stað. Auk þessa fóru tæki frá lögreglunni á Suðurlandi og tveir sjúkrabílar frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands á vettvang. 

Einn maður reyndist hafa verið í bifreiðinni og hafði hann ekki hlotið teljandi meiðsl. Ekki þurfti að beita klippum til þess að ná honum út. 

Við viljum nota tækifærið og brýna fyrir vegfarendum mikilvægi þess að fólk stoppi og kanni málin komi það fyrst að slysavettvangi. 

Það er mjög skiljanlegt að fólk geti óttast það sem fyrir augu ber og geti mögulega efast um getu sína til þess að veita hjálp en allir geta alltaf gert eitthvað. Þó ekki sé nema að gefa greinagóða lýsingu til Neyðarlínu 112, svo hægt sé að boða rétt viðbragð í slysið. Stundum þurfa ótrúlega margar hendur að koma að einu slysi og stundum þarf mjög lítið viðbragð. Þurfi lítið viðbragð þá eru ekki eins mörg tæki send út í umferðina á forgangsakstri. Þó forgangsaksturstækjunum sé stjórnað af þrautþjálfuðum og reyndum bílstjórum getur slíkur akstur alltaf skapað ákveðna hættu sem við viljum gjarnan forðast eins og hægt er.

Pétur Pétursson miðvikudagurinn 19. desember 2018

Höfðingleg gjöf frá Ísmar 19.12.2018

1 af 2

Fyrirtækið ísmar sem sérhæfir sig í alskyns tæknibúnaði færði nýrri aðgerðastjórnstöð Almannavarna og viðbragðsaðila á Suðurlandi tvær Tetra talstöðvar að gjöf í dag. 

Vinna við uppsetningu stjórnstöðvarinnar er í fullum gangi en nokkuð á þó eftir að afla af búnaði til þess að hún nái fullri virkni. Stjórnstöðin er hins vegar virk og komin í notkun þegar á þarf að halda. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá hvar Kjartan Þráinsson tæknilegur söluráðgjafi hjá Ísmar, afhendir Pétri Péturssyni slökkviliðsstjóra Brunavarna Árnessýslu talstöðvarnar sem án nokkurs vafa eiga eftir að koma að góðum notum við stjórnun aðgerða.

Harður árekstur tveggja bifreiða varða á Suðurlandsvegi í gær milli Biskupstungnabrautar og hringtorgsins við Toyota á Selfossi rétt fyrir klukkan fjögur í gær. 

Ökumenn voru einir í hvorri bifreið og þurftu slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu að beita klippum til þess að ná  þeim úr bifreiðunum. 

Báðir aðilar voru fluttir með sjúkrabifreiðum HSU á Landspítalann til frekari skoðunar og aðhlynningar.

Haukur Grönli fimmtudagurinn 13. desember 2018

Harður árekstur

1 af 4

Í gær varð harkalegur árekstur milli tveggja fólksbíla í Árborg. Slökkvistöð Brunavarna Árnessýslu á Selfossi var kölluð út og á vettvang fóru tíu slökkviliðsmenn með tvo dælubíla með klippubúnað og tveir minni útkallsbílar með rafmagnsklippur.

 

Brunavarnir Árnessýslu, Sjúkraflutningar Hsu og lögreglan á Suðurlandi unnu sem ein heild á vettvangi og tók mjög skamman tíma að losa ökumennina sem voru slasaðir og fastir í bílunum. Vegna áverka og eðli slysins var ákveðið að kalla út þyrlu fyrir annan hinna slösuðu.

Rafmagnsklippur eru léttari en mjög öflugar klippur sem Brunavarnir Árnessýslu hafa fjárfest í til að hafa í varðstjórabíl og minni hraðskreiðari bílum, einnig eru þær handhægari og léttari en hefðbundni klippubúnaður, sem þarf dælur. Það gerði að verkum að hægt var að beita fjórum klippum og glennum sem gerir að vinna á vettvangi við að losa þá slösuðu tekur enn minni tíma.

Farið varlega í jólaumferðinni og njótið tímans sem framundan er.

1 af 3

Slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu á Selfossi voru boðaðir út rétt fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi vegna elds í ruslagám. 

Nokkur eldur var í gámnum þegar slökkvilið mætti á staðinn en greiðlega gekk að slökkva. 

Nokkuð líklegt er talið að um íkveikju sé að ræða.

Vefumsjón