Pétur Pétursson þriðjudagurinn 27. nóvember 2018

Þeir kláruðu með sóma

Jæja, síðasta fréttin okkar í bili um slökkviliðsmennina okkar sem eru í stóra slökkviliðsnáminu. Síðastliðin föstudag 23.11.2018 komu prófdómarar frá Mannvirkjastofnun, þeir Pétur Valdimarsson og Guðmundur Halldórsson, til þess að halda verklegt próf fyrir strákana okkar. 

Það er skemmst frá því að segja að þeir kláruðu prófið með sóma og stóðust allir eins og við var búist. 

Þar með lýkur þessari lotu hjá þeim í náminu og er þá einungis ein fjögurra vikna lota eftir sem haldin verður í vor.

1 af 2

Nemarnir okkar hjá BÁ eru í dag að undirbúa sig fyrir verklegt próf sem fer fram á morgun. Munu prófdómarar frá Mannvirkjastofnun mæta á svæðið og taka út þá verkþætti sem þeir verða prófaðir í. Á meðfylgjandi myndum má sjá þá félaga undirbúa sig og æfa fyrir tímatöku í að koma sér í eldgalla og setja á sig reykköfunartæki. Gallarnir og tækin verða að vera þannig á sett að það sé óaðfinnanlegt með tilliti til þess að líf þeirra og heilsa sé varin við þær ómögulegu aðstæður sem þeir vinna við í brennandi byggingum.

Slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu í uppsveitum komu saman í gærkvöldi til þess að skerpa á og við halda kunnáttu sinni. Að þessu sinni æfðu þeir hurðarrofstækni (að brjótast inn á hraðan og öruggan hátt), notkun innfrarauðra myndavéla (hitamyndavéla) við leit og björgun í reykköfun og umhirðu reykköfunartækja. 

Vel var mætt á æfingunna og vilji manna til fagmennsku greinilega mikill.

Pétur Pétursson mánudagurinn 19. nóvember 2018

Flottir kallar í námi

1 af 3

Þessir flottu slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu eru um þessar mundir í námi Brunamálaskóla Mannvirkjastofnunar fyrir slökkviliðsmenn í fullu starfi. Náminu er skipt upp í nám fyrir hlutastarfandi slökkviliðsmenn og svo fyrir slökkviliðsmenn í fullu starfi en það er talsvert lengra en hið fyrrnefnda. Allir eru þeir búnir að klára nám fyrir hlutastarfandi menn en þá þyrsti í meiri fróðleik og þjálfun til þess að mæta enn betur þeim krefjandi aðstæðum sem oft á tíðum skapast í störfum slökkviliðsmanna. 

Námið fer að mestu leiti fram í Reykjavík hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins en núna eru nemendur í nokkra daga í kennslu hjá sínum heimaliðum. 

Á meðfylgjandi myndum má sjá slökkviliðsmennina með leiðbeinendum fara yfir hlutverk, skipulag og búnað stjórnanda reykkafara og búnað reykkafara.

Aðgerðir viðbragðsaðila krefjast í flestum tilfellum margra einstaklinga til starfa. Í fréttamyndum sjáum við oftast þá sem starfa á vettvangi en oft á tíðum gleymast þeir sem starfa á baki þeirra sem á vettvangi eru.  Þar má helst nefna starfsfólk Neyðarlínunnar sem boðar í útköllin og síðan þá sem vinna að heildarskipulagi aðgerða á meðan á þeim stendur en það eru meðal annars þeir sem vinna í aðgerðastjórnstöðvum. Þetta geta verið aðilar frá hinum ýmsu viðbragðsaðilum. 

Mikið álag ef oft á tíðum á björgunaraðilum í Árnessýslu og Suðurlandi öllu og er því farið af stað verkefni í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi um uppbyggingu öflugrar aðgerðastjórnstöðvar sem er samstarfsverkefni allra þeirra sem að björgunarmálum koma á svæðinu. Uppsetning stjórnstöðvarinnar er í fullum gangi um þessar mundir og er hún unnin í áföngum eftir því sem fjárhagur og tími leyfa. 

Á meðfylgjandi mynd má sjá snillingana og sérfræðingana Frímann Birgir Baldursson, varðstjóra hjá Lögreglunni á Suðurlandi og Lárus Kristinn Guðmundsson, varðstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu, önnum kafna við uppsetningavinnu og spekúleringar.

Vefumsjón